Innlent

Eiga að mæta með hávaðatól

Mótmælin síðastliðinn föstudag fóru að mestu friðsamlega fram og mikill fjöldi mætti þegar Alþingi var sett. fréttablaðið/pjetur
Mótmælin síðastliðinn föstudag fóru að mestu friðsamlega fram og mikill fjöldi mætti þegar Alþingi var sett. fréttablaðið/pjetur
Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli klukkan 19.30 í kvöld. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína á sama tíma og er fólk hvatt til þess að mæta með stóra hljómgjafa til þess að „skapa réttan undirleik og umgjörð“ eins og segir á Facebook-síðu fyrir mótmælin sem ganga undir nafninu Tunnumótmælin.

„Gleymum því ekki að stofnunin sem steypti fjármálakerfinu í glötun fyrir tveimur árum, með vanhæfni sinni og spillingu, steypti lýðræðinu sömu leið í atkvæðagreiðslunni um landsdóm síðastliðinn þriðjudag,“ segir á síðunni, þar sem um þúsund manns hafa skráð sig.

Myndband um mótmælin var sett inn á Youtube í kjölfarið og er því einnig ætlað að hvetja fólk til þess að mæta á Austurvöll í kvöld. Myndbandið ber heitið Power to the People og er samansafn af myndbrotum úr búsáhaldabyltingunni og texta.

„Bankarnir afskrifa fyrir auðmenn og fyrrverandi stjórnmálamenn en setja fjölskyldur þúsunda Íslendinga á vonarvöl,“ segir í myndbandinu. „STOPP – hvar sem við stöndum er borgaraleg skylda okkar allra að mótmæla.“

Lögreglan hefur ekki ákveðið hvort sérstakur viðbúnaður verði við Alþingishúsið um kvöldið.

- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×