Erlent

Svartfjallaland í hópinn

Nicolas Sarkozy og Angela Merkel Leiðtogar Frakklands og Þýskalands tókust á um efnahagsmálin. nordicphotos/AFP
Nicolas Sarkozy og Angela Merkel Leiðtogar Frakklands og Þýskalands tókust á um efnahagsmálin. nordicphotos/AFP

Leiðtogar Evrópusambandsins samþykktu í gær að veita Svartfjallalandi stöðu umsóknarlands, en búast má við að fjögur til fimm ár líði áður en aðildarviðræðum getur lokið með aðildarsamningi.

Á fundinum, sem stóð í tvo daga, tókst einnig samkomulag um frekari aðgerðir í efnahagsmálum til að verjast kreppunni sem nú herjar illilega á nokkur aðildarlandanna.

Samið var um nýtt kerfi til að bjarga ríkjum úr efnahagsvanda en ekki náðist samkomulag um að stækka neyðarsjóðinn sem settur var á laggirnar fyrr á þessu ári.

„Svartfjallaland er fyrsta landið á vestanverðum Balkanskaga sem fær stöðu umsóknarlands í fimm ár,“ segir Slavica Milacic, ráðgjafi Milo Djukanovic forseta, en hún var sendiherra landsins hjá Evrópusambandin þar til fyrir skömmu. „Þetta er líka mjög mikilvægt fyrir þennan heimshluta vegna þess að með þessu er gefið skýrt merki um að aðlögunarferlið að ESB muni halda áfram.“

Af löndunum á vestanverðum Balkanskaga hefur aðeins Slóvenía fengið aðild að ESB til þessa, en auk Svartfjallalands hafa Króatía og Makedónía stöðu umsóknarlands.

Króatar eru nýbúnir að ljúka aðildarviðræðum sínum við ESB og vonast til þess að fá aðild á næsta eða þarnæsta ári, hugsanlega um svipað leyti og Íslendingar.

Aðildarviðræður við Makedóníu hafa verið í biðstöðu árum saman vegna deilu við Grikkland um nafn landsins, sem er samnefnt Makedóníuhéraði í Grikklandi.

Albanía og Serbía hafa einnig sótt um aðild. Bosnía og Hersegóvína hefur einnig hafið þreifingar um aðild og sömu sögu er að segja af Kosovo.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×