Innlent

Stóðu við loforð til kjósenda

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson

VG-þingmennirnir þrír, Atli Gíslason, Ásmundur Daðason og Lilja Mósesdóttir, sem ekki styðja fjárlög ríkisstjórnarinnar, fylgdu þeim stefnumarkmiðum og hugsjónum sem þeir lofuðu kjósendum sínum.

Þetta er mat Ögmundar Jónas­sonar ráðherra. Svaraði hann þessu til þegar Sigurður Kári Kristjánsson Sjálfstæðisflokki innti hann eftir afstöðu til málsins á þingi í gær.

Bætti Ögmundur við að hann bæri traust til þingmannanna og sagði að auki að ekki ætti að leiða málefnalegan ágreining ofan í persónulegar skotgrafir. Slíkt hefði einkennt stjórnmálaumræðuna í allt of ríkum mæli.

Össur Skarphéðinsson utanríkis­ráðherra er hins vegar á annarri skoðun. Hann telur þremenningana hafa leiðst afvega út á pólitíska glapstigu.

Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði hann út í málið sagði hann það sína skoðun að þeir sem styddu ríkisstjórn yrðu að uppfylla tvennt: annars vegar að verja ríkisstjórn vantrausti og hins vegar að styðja fjárlagafrumvarp. Þeir sem gerðu það ekki hlytu að velta því fyrir sér hvar í heiminum þeir væru staddir.- bþs








Fleiri fréttir

Sjá meira


×