Innlent

Tíðnisvið gæti kostað 120 milljónir króna

Tíðnisvið fjarskiptafyrirtækja eru takmarkaðar auðlindir, segir formaður samgöngunefndar Alþingis. Fréttablaðið/gva
Tíðnisvið fjarskiptafyrirtækja eru takmarkaðar auðlindir, segir formaður samgöngunefndar Alþingis. Fréttablaðið/gva

Tíðnisvið fyrir fjarskipti eru takmörkuð heimild sem ber að greiða auðlindagjald af. Þetta segir Björn Valur Gíslason, formaður samgöngunefndar Alþingis, um frumvarp sem liggur á borði nefndarinnar um breytingar á fjarskiptalögum og gæti það orðið að lögum á morgun.

Í ákvæði til bráðabirgða er mismunandi gjald lagt á tíðnisviðin og hleypur það frá hálfri milljón króna til 1,5 milljóna króna. Gjaldið fellur á Símann og Vodafone sem þurfa að endurnýja tíðni­heimildir sínar á næstu tveimur árum.

Samgöngunefnd reiknast til að Síminn og Vodafone gætu þurft að greiða rúmar 120 milljónir króna fyrir tíðniheimildir frá 2012 til tíu ára.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans

Síminn bendir á í athugasemdum við frumvarpið að neysluverðsvísitala sé lögð til grundvallar útreikningunum. Bent er á að samræmd vísitala neysluverðs hafi hækkað um 48 prósent á síðastliðnum fimm árum.

Símakostnaður í vísitölunni hefur hins vegar hækkað um sautján prósent á sama tíma. Því geti gjaldið leitt til hækkunar á neysluverðsvísitölu.

„Hér er um að ræða sértækan skatt sem beinist eingöngu að völdum fyrirtækjum og felur í sér brot á jafnræðisreglu," segir Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone. „Við munum kanna réttarstöðu okkar ef þetta verður samþykkt. Okkur verður gert að greiða sextíu milljónir og teljum á okkur brotið," segir hann.

Hrannar Pétursson

Björn Valur segir frumvarpið fela í sér að hvorugt fyrirtækjanna greiði meira en áður.

„Tíðnisvið eru takmörkuð auðlind. Síminn og Vodafone þurfa því að greiða fullt gjald fyrir hana," segir Björn Valur. jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×