Innlent

Ekki heimilt að leggjast gegn leyfi til Goldfinger

Þótt nektardans hafi áður verið stundaður á Goldfinger getur bærinn ekki neitað staðnum um rekstrarleyfi, segja lögmenn.
Þótt nektardans hafi áður verið stundaður á Goldfinger getur bærinn ekki neitað staðnum um rekstrarleyfi, segja lögmenn.

Bæjaryfirvöldum í Kópavogi er ekki stætt á því að leggjast gegn því að nýtt hluta­félag Ásgeirs Davíðssonar fái leyfi til að reka skemmtistaðinn Goldfinger. Þetta kemur fram í álitsgerð sem Mörkin lögmannsstofa vann fyrir Kópavogsbæ.

Ásgeir stofnaði Sportakademíuna ehf. í júlí og sækir félagið um heimild til rekstrar á Goldfinger. Mörkin lögmannsstofa segir að þótt Goldfinger hafi boðið upp á nektardans á undanförnum árum hafi lögum síðan verið breytt. Nú sé hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar né gera með öðrum hætti út á nekt starfsmanna eða annarra sem eru á staðnum.

„Bæjarstjórn Kópavogs verður því að ganga út frá þeirri forsendu að nektardans verði ekki stundaður á Goldfinger þar sem um ólöglega starfsemi væri að ræða. Sú staðreynd að svo hafi áður verið getur ekki orðið til þess að réttlæta það að leggjast gegn umræddri umsókn fyrir það að hún sé andstæð sameiginlegum velferðarmálum íbúa bæjarins,“ segir í lögfræðiálitinu, þar sem enn fremur er bent á að atvinnufrelsi sé varið af stjórnarskránni:

„Takmarkanir á því verða að byggjast á lögmætum og málefnalegum ástæðum og heimildir til þess verður að túlka þröngt. Upplýsingar sem við höfum um málið bera ekki með sér að sýnt hafi verið fram á slík heimild sé fyrir hendi.“

Eftir að álitsgerðin var lögð fram ákvað bæjarráð að kalla saman til fundar lögbundna umsagnaraðila; fulltrúa sveitarstjórnar, heilbrigðiseftirlits, slökkviliðs, vinnueftirlits, byggingarfulltrúa og lögreglu og fá þá til að vinna saman að umsögn um málið. Sýslumaður getur ekki gefið út rekstrarleyfi ef einhver umsagnaraðili leggst gegn því á málefnalegum forsendum.

Í samþykktum Sportakademíunnar ehf. kemur fram að tilgangur félagsins sé veitingarekstur, verslun og danssýningar.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×