Innlent

Hægt að koma í veg fyrir dauðsföll

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sautján konur greinast að meðaltali með leghálskrabbamein á Íslandi ár hvert og þrjár konur deyja af völdum þess. Í ítarlegri fréttaskýringu um málið í Fréttablaðinu í dag kemur fram að gríðarlegur árangur hefur náðst í baráttunni við leghálskrabbamein síðan byrjað var að leita skipulega eftir krabbameininu árið 1964.

Á þessum tíma hefur nýgengni sjúkdómsins lækkað um 64 prósent og dánartíðnin um 83 prósent. Þetta kemur fram í greinargerð sem starfshópur sóttvarnalæknis gerði árið 2008 um kostnaðarhagkvæmni bólusetningar. Greinargerðin var endurskoðuð árið 2009. Í ítarlegri fréttaskýringu í Fréttablaðinu kemur fram að hægt væri að koma í veg fyrir dauðsföll með bólusetningu.

Hægt verður að hefjast handa við bólusetningar á næsta ári, að loknu útboði á bóluefninu, segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir. Ekki verður boðið upp á bólusetningar fyrir stúlkur sem eru eldri en tólf ára. „Þetta verður bara tekið inn eins og í ungbarnabólusetningunni og byrjað á tólf ára stelpum. Það verður ekki farið í svokallað "catch-up", að ná eldri stúlkum," segir Haraldur í samtali við Fréttablaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×