Innlent

Sakar Guðlaug um tilhæfulausar dylgjur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir ásakanir Guðlaugs algjörlega tilhæfulausar. Mynd/ GVA.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir ásakanir Guðlaugs algjörlega tilhæfulausar. Mynd/ GVA.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra vísar alfarið á bug ásökunum og fullyrðingum alþingismannsins Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um að ráðuneytið hafi gefið Alþingi vísvitandi röng svör og leynt upplýsingum um greiðslur ráðuneyta til starfsmanna félagsvísindadeildar Háskóla Íslands.

Segir Jóhanna þessar ásakanir bæði tilefnislausar og ósæmilegar. Jóhanna segir að svörin hafi öll verið unnin af fyllstu vandvirkni og eftir bestu vitund en úrvinnslan hafi veirð í höndum Fjársýslu ríkisins og allra ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

„Málatilbúnaður alþingismannsins stenst enga skoðun og er alvarleg aðför að starfsheiðri starfsmanna Stjórnarráðsins," segir Jóhanna. Hún segir að svar forsætisráðuneytisins hafi verið grundvallað á samhljóða svörum þeirra 12 ráðuneyta sem fengu fyrirspurnir alþingismannsins sendar en ítekað hafi þurft að kalla eftir mismunandi svörum ráðuneytanna þar sem alþingismaðurinn hafi breytt fyrirspurnum sínum fjórum sinnum.

„Eðli málsins samkvæmt tafði þessi hringlandaháttur fyrirspyrjanda skil á endanlegum svörum. Forsætisráðuneytið fullyrðir að öll ráðuneytin hafi unnið svör sín eftir bestu samvisku og ráðuneytið harmar þær ásakanir sem þingmaðurinn ber á þá starfsmenn tólf ráðuneyta sem unnu svörin og leyndu engu," segir Jóhanna.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×