Innlent

Baráttunni síður en svo lokið

Frá ráðstefnunni í gær. 
fréttablaðið/stefán
Frá ráðstefnunni í gær. fréttablaðið/stefán

Þrjátíu milljónum króna var veitt í verkefni vegna Evrópuárs gegn fátækt og félagslegri einangrun á árinu sem er að líða. Þetta kom fram á lokaráðstefnu átaksins, sem fram fór í gær.

Á ráðstefnunni voru meðal annars kynntar niðurstöður þjóðfundar sem haldinn var í maí og fjallaði um fátækt og félagslega einangrun. Á fundinum sat fólk sem upplifir fátækt og félagslega einangrun ásamt stjórnmálamönnum og þeim sem vinna að málefnum tengdum fátækt. Helstu niðurstöðurnar voru þær að setja þurfi framfærsluviðmið, auka upplýsingaflæði og aðgengi fólks að frekari menntun.

„Þetta eru allt mikilvæg atriði sem við þurfum að vinna að," sagði Guðbjartur Hannesson félags- og tryggingamálaráðherra. Hann sagði þegar unnið að því að skilgreina neysluviðmiðin og vonast sé til þess að hægt verði að kynna þær niðurstöður von bráðar. Hann sagði samstöðu lykilatriði í baráttunni gegn þessu þjóðfélagsmeini. „Við munum fara vandlega yfir þessar niðurstöður og taka mið af þeim þegar kemur að stefnumótun ráðuneytisins." Þá sagði ráðherrann grunn hafa verið lagðan með átakinu „en baráttunni gegn fátækt og félagslegri einangrun er síður en svo lokið". - þeb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×