Erlent

Íbúar flúðu í ofboði

Lee Myung-bak, forseti Suður-Kóreu, í svörtum leðurjakka á fundi herráðs landsins í höfuðborginni Seúl.fréttablaðið/AP
Lee Myung-bak, forseti Suður-Kóreu, í svörtum leðurjakka á fundi herráðs landsins í höfuðborginni Seúl.fréttablaðið/AP

Bandaríkin fordæmdu árás Norður-Kóreumanna í gær. Robert Gibbs, blaðafulltrúi Hvíta hússins, skoraði á Norður-Kóreu að láta af árásum og sagði Bandaríkin staðráðin í að verja Suður-Kóreu. Bandaríkin eru með nærri 30 þúsund hermenn í Suður-Kóreu.

Catherine Ashton, utanríkismálafulltrúi Evrópusambandsins, fordæmdi sömuleiðis árás Norður-Kóreumanna og hvatti þá til að halda meira en hálfrar aldar gamalt vopnahlé ríkjanna.

Kínversk stjórnvöld, sem lengi hafa stutt við bakið á Norður-Kóreu en eiga einnig í nánum viðskiptatengslum við Suður-Kóreu, hvöttu bæði ríkin til að halda ró sinni og „leggja meira af mörkum við að tryggja frið og stöðugleika á Kóreuskaga,“ að því er Hong Lei, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, sagði.

Íbúar á eyjunni Yeonpyeong fylltust skelfingu þegar árásirnar hófust skyndilega um hálfþrjú síðdegis að staðartíma.

„Ég hélt ég myndi deyja,“ sagði Lee Chun-ok, sem sagðist hafa verið að horfa á sjónvarpið heima hjá sér þegar sprengjurnar tóku að falla. Veggur hjá henni hrundi og þá forðaði hún sér frá eyjunni yfir til meginlands Suður-Kóreu ásamt fleiri eyjarskeggjum.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×