Erlent

Norður-Kóreumenn telja sig hafa verið í fullum rétti

Fylgst með sprengingum. Mikinn reyk lagði frá sprengingunum á Yeongpyeong-eyju í gær.
Fylgst með sprengingum. Mikinn reyk lagði frá sprengingunum á Yeongpyeong-eyju í gær. Mynd/AP

Norður-Kóreumenn telja sig hafa verið í fullum rétti þegar þeir gerðu árás á eyjuna Yeonpyeong í gær meðan heræfingar stóðu þar yfir á vegum Suður-Kóreumanna.

Samkvæmt frásögnum Suður-Kóreumanna skutu Norður-Kóreumenn tugum skota úr þungavopnum á Yeonpyeong-eyju og í hafið umhverfis eyjuna. Á eyjunni kviknaði í nærri 70 húsum, að minnsta kosti tveir suðurkóreskir hermenn létu lífið og átján manns særðust, þar af tveir hermenn alvarlega.

Suður-Kóreumenn svöruðu í svipaðri mynt, með skothríð yfir til Norður-Kóreu, og saka Norður-Kóreumenn um að hafa, með því að gera árás á almenna borgara, brotið ákvæði í vopnahléssamningi ríkjanna frá 1953.

Norður-Kórea hefur aldrei viður­kennt landhelgismörk ríkjanna í Gulahafi austur af Kóreuskaga. Markalínan, sem Sameinuðu þjóðirnar lýstu einhliða yfir árið 1953, liggur mun nær strönd Norður-Kóreu en Suður-Kóreu.

Eyjan Yeongpyeong er rétt sunnan línunnar. Þar hefur her Suður-Kóreu haft aðstöðu auk þess sem lítil byggð almennra borgara er á eyjunni.

Norður-Kóreumenn hafa hins vegar gert tilkall til hafsvæðis lengra til suðurs, að annarri markalínu sem er nær því að liggja mitt á milli ríkjanna, þótt Yeongpyeong og fleiri litlar eyjar í byggð myndu þá falla undir yfirráð Norður-Kóreu.

Norður-Kóreumenn virðast líta á heræfingar Suður-Kóreumanna sem ögrun, eins þótt suður-kóreski herinn segist hafa gætt sín á því að skjóta til suðurs, í áttina frá Norður-Kóreu. Strangt til tekið féllu skotin í hafið á svæði sem Norður-Kóreumenn gera tilkall til.

Mikil spenna hefur ríkt milli ríkjanna á þessu svæði áratugum saman, en Suður-Kóreumenn hafa jafnan lýst því yfir að þeir muni verja markalínuna og eyjarnar suður af henni af fullri hörku.

Tvisvar áður hafa brotist út mannskæð átök við Yeongpyeong-eyju, fyrst árið 1999 og síðan árið 2002. Fleiri átök hafa orðið við markalínuna, síðast í mars á þessu ári þegar suðurkóresku herskipi var sökkt með tundurskeyti. Suður-Kóreumenn eru sannfærðir um að skotið hafi verið úr norður-kóreskum kafbáti, þótt Norður-Kóreumenn hafi neitað allri sök.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×