Viðskipti innlent

Sigurður setur skilyrði fyrir heimkomu

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, hefur ekki orðið við beiðni sérstaks saksóknara um að koma fyrr til yfirheyslu vegna rannsóknar á málefnum Kaupþings. Sigurður hefur verið boðaður til yfirheyrslu næstkomandi föstudag og setur skilyrði fyrir að flýta för sinni að hann verði ekki handtekinn við komuna til landsins. Hann hefur einnig boðið sérstökum saksóknara að yfirheyra sig í Bretlandi.

Fréttastofa greindi frá því fyrir helgi að Sigurður Einarsson fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings hefði verið boðaður í skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara í lok þessarar viku. Eftir handtöku Hreiðars Más Sigurðssonar og Magnúsar Guðmundssonar fór sérstakur saksóknari þess á leit við Sigurð að hann flýtti komu sinni til landsins því mikilvægt þótti að hraða rannsókn málsins í ljósi gæsluvarðhaldsúrskurða.

Sigurður hefur réttarstöðu grunaðs í hluta rannsóknarinnar. Hann hefur hins vegar ekki sinnt kalli embættisins um að koma fyrr til landsins. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Sigurður boðið starfsmönnum sérstaks saksóknara að yfirheyra sig í Bretlandi. Þá á hann einnig að hafa boðist til að koma til landsins í skýrslutöku gegn því skilyrði að hann yrði ekki handtekinn.

Gestur Jónsson verjandi Sigurðar vildi ekki tjá sig um málið þegar leitað var eftir því í dag.

Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari varðist allra frétta en samkvæmt upplýsingum frá embættinu er reynt eftir fremsta megni að fá Sigurð í yfirheyrslur.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×