Fótbolti

Firnasterkir Þjóðverjar skelltu Áströlum - myndband

Elvar Geir Magnússon skrifar

Þýskaland byrjar heimsmeistaramótið með glæsibrag en liðið burstaði Ástralíu 4-0 í kvöld.

Ástralía mætti til leiks með varnarleikinn að leiðarljósi en þau plön eyðilögðust strax á áttundu mínútu þegar Lukas Podolski kom Þjóðverjum yfir með laglegu marki.

Miroslav Klose bætti öðru marki við fyrir hálfleik með skalla en þrátt fyrir að hafa ekki verið að gera neinar rósir með félagsliði sínu þá stendur hann alltaf fyrir sínu þegar kemur að landsliðinu.

Allar vonir Ástrala hurfu svo endanlega á 56. mínútu þegar Tim Cahill fékk beint rautt spjald fyrir fremur saklausa tæklingu. Einfaldlega röng ákvörðun hjá dómara leiksins.

Þjóðverjar nýttu sér liðsmuninn en þeir Thomas Müller og Cacau bættu við mörkum og úrslitin 4-0. Cacau skoraði með sinni fyrstu snertingu eftir að hafa komið inn sem varamaður.

Samantekt úr leiknum má sjá á HM-vef Vísis, með því að smella á Brot af því besta undir flipanum VefTV, hægra megin á síðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×