Fótbolti

Markvarðarmistök færðu Slóvenum þrjú stig - myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Faouzi Chaouchi, markvörður Alsír - heldur niðurlútur eftir markið sem hann fékk á sig í dag.
Faouzi Chaouchi, markvörður Alsír - heldur niðurlútur eftir markið sem hann fékk á sig í dag. Nordic Photos / Getty Images

Aftur voru það mistök hjá markverði sem hafði úrslitaáhrif á leik í C-riðli heimsmeistarakeppnininar í Suður-Afríku er Slóvenía vann 1-0 sigur á Alsír í dag.

Robert Koren skoraði eina mark leiksins á 79. mínútu leiksins og minnti það mjög á mark Bandaríkjanna gegn Englandi í gær. Koren átti skot að marki sem Faouzi Chaouchi, markvörður Alsír, átti að verja en hann einfaldlega missti af boltanum sem hafnaði í markhorninu.

Í gær mistókst Robert Green, markverði Englands, að klófesta boltann eftir auðvelt skot Clint Dempsey sem stefndi beint á Green í markinu.

Leikurinn var annars lítið fyrir augað og dró ekki til tíðinda fyrr en á 72. mínútu er Abdelkader Ghezzal, leikmaður Alsír, fékk að líta rauða spjaldið.

Aðeins tólf mínútum kom hann inn á sem varamaður og var búinn að vera inn á vellinum í afar skamma stund er hann fékk áminningu fyrir peysutog. Síðara gula spjaldið fékk hann svo fyrir að leggja boltann fyrir sig með höndinni.

Slóvenar geta því fagnað mjög í dag því þeir eru í efsta sæti C-riðils með þrjú stig, tveimur meira en England og Bandaríkin. Slóvenía mætir Bandaríkjunum í næsta leik og England mætir Alsír. Báðir leikir fara fram á föstudaginn.

Samantekt úr leiknum má sjá á HM-vef Vísis, með því að smella á Brot af því besta undir flipanum VefTV, hægra megin á síðunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×