Íslenski boltinn

Heimir: Hefði viljað skora fleiri mörk

Valur Smári Heimisson skrifar
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV.
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV. Mynd/Daníel

Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, var afar sáttur við sína menn eftir 1-0 sigur á Fylki í Pepsi-deild karla í dag.

„Þetta var nú ekki okkar besti leikur og við áttum í erfiðleikum með spil, sérstaklega í fyrri hálfleik. Ég er þó stoltur af strákunum," sagði Heimir.

„Í seinni hálfleik var þetta miklu betra. Þeir voru hættir í skyndisóknum og við vissum að það þýddi ekki að taka mikla sénsa á móti þeim. Ég var þó ósáttur við að hafa ekki skorað fleiri mörk og við vorum klaufar að hafa ekki gert það. En þeir áttu líka ágætis færi þar sem Albert varði tvisvar glæsilega."

Ásgeir Börkur Ásgeirsson, leikmaður Fylkis, fékk að líta rauða spjaldið í leiknum í dag en hann fékk sína aðra áminningu í leiknum fyrir leikaraskap.

„Þessi harði nagli var að reyna að fiska einhverja aukaspyrnu. Það er kannski svolítið skammarlegt fyrir hann af því að hann er nú harður gaur."

Heimir var þó ánægður með að vera í toppsæti deildarinnar. „Við settum okkur það markmið að gera betur en í fyrra. Við ætluðum að blanda okkur í baráttuna um toppsæti og við ætlum ekki að fara á taugum þó svo að við séum í efsta sæti í dag. Við munum njóta þess á meðan vel gengur."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×