Skoðun

Varðandi vinnuframlag Ásbjörns Óttarssonar - opið bréf

Úlfur Eldjárn skrifar

Kæri Ásbjörn.

Það hefur kannski farið fram hjá þér að þegar listamannalaun eru veitt hafa ákveðin verkefni verið lögð til grundvallar umsókninni. Svíkist listamaðurinn um að vinna þessi verkefni eru launin tekin af honum.

Á þingi situr hinsvegar hópur fólks og þiggur laun frá ríkinu, reyndar töluvert hærri laun en er áætlað að dugi listamönnum til framfærslu. Þessu fólki hafa verið falin ákveðin verkefni en ólíkt listamönnunum fá þingmenn að halda sínum launum þótt þeir svíkist undan því að vinna vinnuna sína og vinni jafnvel beinlínis gegn verkefnunum sem þeim voru falin. Það er ekki hægt að reka þessar liðleskjur úr starfi fyrr en í fyrsta lagi þegar kjörtímabilinu lýkur og þá er ómögulegt að ná aftur af þeim laununum sem þeir þáðu fyrir að bregðast skyldum sínum.

Listamenn skapa ekki aðeins menningu þjóðarinnar sem er verðmæt í sjálfu sér, heldur framleiða þeir einnig afurð sem skilar áþreifanlegum tekjum í þjóðarbúið. Þingmenn framleiða ekki neitt og skila engum tekjum til þjóðarbúsins.

Í ljósi þess hvað þér finnst sárt að peningar ríkisins fari til annarra óbrýnni mála á meðan skorið er niður í heilbrigðiskerfinu liggur beint við að beina spurningu þinni aftur til þín: Af hverju færð ÞÚ þér ekki vinnu eins og venjulegt fólk?

 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×