Fótbolti

Enginn hefur tapað fyrsta leik og orðið heimsmeistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Spánverjarnir Iker Casillas og Gerald Pique voru varnarlausir þegar Sviss skoraði sigurmarkið sitt.
Spánverjarnir Iker Casillas og Gerald Pique voru varnarlausir þegar Sviss skoraði sigurmarkið sitt. Mynd/AP
Evrópumeistarar Spánverja þurfa að endurskrifa söguna ætli þeir sér að vinna heimsmeistaratitilinn í Suður-Afríku. Þetta var ljóst eftir að spænska liðið tapaði 0-1 í fyrsta leiknum sínum sem var á móti Svisslendingum í dag.

Þrjú lið hafa komist næst því að ná að koma til baka og vinna heimsmeistaratitilinn eftir tap í fyrsta leik. Vestur-Þýskaland (1982), Argentína (1990) og Ítalía (1994) töpuðu sínum fyrsta leik í þessum keppnum en fóru alla leið í úrslitaleikinn.

Vestur-Þjóðverjar (þá ríkjandi Evrópumeistarar) töpuðu 1-2 á móti Alsír í fyrsta leik sínum á HM 1982 en unnu síðan tvo síðustu leiki sína í riðlinum og fóru á endanum alla leið í úrslitaleikinn þar sem töpuðu 1-3 á móti Ítalíu.

Argentínumenn (þá ríkjandi Heimsmeistarar) töpuðu 0-1 á móti Kamerún í opnunarleiknum á HM 1990 en skriðu inn í 16 liða úrslitin og fóru á endanum alla leið í úrslitaleikinn þar sem töpuðu 0-1 á móti Vestur-Þýskalandi.

Ítalir töpuðu 0-1 á móti Írlandi í fyrsta leik sínum á HM 1994 en skriðu inn í 16 liða úrslitin og fóru á endanum alla leið í úrslitaleikinn þar sem töpuðu í vítakeppni á móti Brasilíu.

Næsti leikur Spánverja er á móti Hondúras á mánudaginn kemur. Lokaleikur liðsins í riðlakeppninni er síðan á móti Chile fjórum dögum síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×