Fótbolti

Þjálfari Mexíkó búinn að skipta um fyrirliða fyrir Frakkaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael Marquez fagnar marki sínu í fyrsta leiknum.
Rafael Marquez fagnar marki sínu í fyrsta leiknum. Mynd/AP
Javier Aguirre, þjálfari Mexikó, er búinn að ákveða að skipta um fyrirliða hjá liðinu. Rafael Marquez mun því bera fyrirliðabandið á móti Frökkum á morgun í staðinn fyrir Gerardo Torrado sem var fyrirliði í fyrsta leiknum á móti Suður-Afríku.

„Það er starf fyrir reynslumikinn leikmann að leiða þetta unga lið og vera tengingin á milli leikmanna og þjálfarans. Þess vegna hef ég ákveðið að Rafa Marquez verði fyrirliðinn á morgun," sagði Javier Aguirre á blaðamannafundi fyrir leikinn.

Hinn 31 árs gamli Rafael Marquez er að leika sína síðustu landsleiki á HM í Suður-Afríku en hann á að baki 92 landsleiki og skoraði sitt ellefta landsliðsmark í fyrsta leiknum á móti Suður-Afríku.

Gerardo Torrado hefur spilað fleiri landsleiki en Marquez (115 á móti 92) en þjálfarinn treystir frekar Rafael Marquez í þessum mikilvæga leik sem Mexíkó má alls ekki tapa ætli liðið sér að komast áfram í 16 liða úrslitin.

„Við verðum að spila þennan leik á morgun eins og þetta sé okkar síðasti leikur í keppninni," sagði Javier Aguirre.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×