Fótbolti

Diego Maradona: Pele á heima á safni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona, þjálfari Argentínu, lagðist á bæn á æfingu liðsins.
Diego Maradona, þjálfari Argentínu, lagðist á bæn á æfingu liðsins. Mynd/AP
Diego Maradona, þjálfari Argentínu svaraði Pele fullum hálsi á blaðamannafundi í dag. Pele hafði látið það frá sér á dögunum að eina ástæðan fyrir því að Maradona hafi tekið að sér að þjálfa argentínska landsliðið væri að hann hefði vantað peninginn.

„Það kemur mér ekki á óvart að heyra þetta frá honum. Pele á heima á safni og á bara að skila sér þangað aftur," sagði Diego Maradona á blaðamannafundi fyrir leik Argentínu á móti Suður-Kóreu á morgun.

Michel Platini forseti UEFA fékk líka pillu frá Maradona en Platini talaði um það fyrir nokkrum mánuðum að Maradona væri frábær leikmaður en ekki góður þjálfari.

„Ég var aldrei í góðu sambandi við Platini og við gerðum lítið annað en að heilsast. Við vitum samt öll hvernig Frakkar láta og Platini er Frakki. Hann telur að hann sé betri en við hin," sagði Maradona.

Maradona tjáði sig líka um Jabulani-boltann en hann segðist vera þess fullviss að mörkunum færi nú að fjölga í heimsmeistarakeppninni fyrst að liðin séu búin að spila þennan hættulega fyrsta leik.

„Ég vil ekki vera að tala mikið um boltann því allir eru að tala um hann. Hann er samt mikilvægur og spilar sína rullu í þessu. Ef ég væri þið má myndi ég biðja Pele og Platini að leika sér aðeins með boltann. Þeir ættu að skoða hann aðeins betur og hætta síðan að tala um mig," sagði Maradona.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×