Formúla 1

Úrslitin í Formúlu 1 meistaramótinu ráðast á næstu 13 dögum

Fimm ökumenn eiga enn möguelika í meistaramóti Formúlu 1 ökumanna.
Fimm ökumenn eiga enn möguelika í meistaramóti Formúlu 1 ökumanna. Mynd: Getty Images/Paul Gilham

Lokaspretturinn í meistaraslag Formúlu 1 er framundan, en keppt verður í Brasilíu um næstu helgi og í Abu Dhabi um aðra helgi. Fernando Alonso getur orðið meistari á sunnudaginn, en líklegra er að úrslitin ráðist í lokamótinu 14. nóvember, en fimm ökumenn eiga möguleika á titlinum.

Þar sem aðeins vika er á milli mótanna þá verður keppnisliðin önnum kafinn á næstunni, en búnaður liðanna er fluttur flugleiðis til beggja landa. Alonso er með 11 stiga forskot í stigakeppni ökumanna með 231 stig, Mark Webber er með 220, Lewis Hamilton 210, Sebastian Vettel 206 og Jenson Button 189.

Button á sísta möguleika, en 50 stig eru enn í stigapottinum fyrir sigur í mótunum tveimur, eða 25 stig á hvern sigur. Fyrir annað sætið fást 18 stig úr hverju móti, þriðja 15, fjórða 12, síðan 10 stig og færri fyrir næstu sæti, en fremstu 10 sætin gefa stig í stigamótinu. Alonso hefur unnið flesta sigra árinu og slíkt telst til tekna ef ökumenn verða jafnir að stigum, en keppinautar hans geta þó jafnað fjölda sigra með góðum árangri í lokamótunum.

Það að Webber gerði mistök í síðustu keppni og féll úr leik gæti reynst honum dýrkeypt. Hann var með 14 stiga forskot á Alonso fyrir mótið í Suður Kóreu, en er núna 11 stigum á eftir. Alonso er reynslubolti í titilslag og landaði titlum með Renault 2005 og 2006. Til að Alonso geti tryggt sér meistaratitilinn um næstu helgi þarf hann að fá 15 stigum meira en Webber og 4 stigum meira en Hamilton hvað stigagjöf varðar.

Það ætti því að vera nokkuð ljóst að þeir sem eru á eftir Alonso í sigamótinu koma til með að sækja í næsta móti, til að reyna minnka stigaforskotið. Vettel var í forystu í síðastu keppni, en missti af mögulegum sigri þegar vélin bilaði hjá honum. Vettel getur jafnað stigastöðuna við Alonso í næsta móti, ef Alonso fellur úr keppni og hann sigrar.

Þar sem fimm ökumenn eiga enn möguleika á titilinum er hægt að reikna möguleika manna á ýmsan hátt, en miðað við reynslu og getu ökumanna, þá er líklegast að heimsmeistari verði ekki heiðraður fyrr en í lokamótinu.

Það er harla ólíklegt að öllum fjórum keppinautum Alonso fatist öllum flugið um næstu helgi. Það nægir t.d. heldur ekki Alonso að sigra í Brasilíu, ef Webber nær öðru til fjórða sæti. Taugastríðið verður væntanlega í algleymingi á ráslínu á Interlagos brautinni um næstu helgi og árangur í tímatökum verður mikilvægur hvað spennustigið varðar.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×