Innlent

Skólastjóri Melaskóla sleginn yfir hótun á Facebook

Skólastjóri Melaskóla er sleginn yfir hótun á Facebook samskiptaefnum um að sprengja skólann í loft upp. Stofnandi síðunnar segist framkvæma hótunina ef þúsund manns skrái sig á síðuna en nú hafa um ellefu hundruð manns gert það. Skólastjórinn skorar á þann sem stendur fyrir hótuninni að gefa sig fram strax.

Síða hefur verið stofnuð á samskiptasíðunni þar sem hótað er að sprengja Melaskóla í Reykjavík ef þúsund notendur lýsi stuðningi við síðuna. Síðan ber heitið „ef 1000 joina þá sprengi ég melaskóla :)" segir orðrétt á síðunni. Nú í morgun höfðu ellefu hundruð og sextíu manns skráð sig á síðuna.

Björn Pétursson, skólastjóri Melaskóla, frétti af síðunni í morgun. „Auðvitað bregður manni þegar maður sér þetta allt í einu þegar maður vaknar á fallegum degi."

Björn hafði samband við lögregluna, sem rannsakar nú málið. „Ég hvet þann sem gerði þetta að láta vita af sér og segja að þetta sé grín sem það hlýtur að vera því það er ekki gott fyrir mörg hundruð lítil börn að fá svona fréttir, ef þau frétta þetta, þetta er auðvitað ekkert grín, þó að það sé eflaust sett fram sem slíkt."

Björn segist taka hótunina alvarlega. Í skólanum séu 570 nemendur og sjötíu starfsmenn. „Þó maður eigi alls ekki von á að þetta verði að veruleika þá er þetta þannig vaxið að þetta er ekki til þess að gera neitt annað en að vekja ótta meðal barnanna og foreldranna líka. Þetta mál verður að vera alveg klárt áður en skólinn fer í gang eftir helgi," segir Björn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×