Innlent

Ísland verði miðstöð millilandaflugs frá Grænlandi

Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu.
Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu.
Íslandsstofa bindur vonir við að Ísland verði miðstöð millilandaflugs frá Grænlandi, en hingað til hafa Grænlendingar alltaf flogið í gegnum Kaupmannahöfn. Sendinefnd frá Íslandsstofu fer til Grænlands í vikunni til að kynna verkefnið.

Mikil sóknarfæri eru fyrir íslensk fyrirtæki ef samkomulag næst um að gera Ísland að miðstöð millilandaflugs milli Grænlands og annarra ríkja, en hingað til hafa Grænlendingar og þeir sem hafa viljað sækja Grænland heim flogið í gegnum Kastrup-flugvöll í Kaupmannahöfn.

Hinn 16. nóvember næstkomandi fer sérstök sendinefnd íslenskra fyrirtækja út til Nuuk á vesturströnd Grænlands á vegum Íslandsstofu, en fulltrúar Flugfélags Íslands verða með í för og er ætlunin að kynna þennan möguleika fyrir Grænlendingum og hefja viðræður í kjölfarið um hvort ekki sé um fýsilegan kost að ræða.

„Við þurfum að geta sýnt Grænlendingum að við höfum raunverulegan áhuga á almennum viðskiptum við þá. Þeir hafa til skamms tíma mikið beint viðskiptum sínuma til Danmerkur," segir Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu.

Íslendingar munu þar blanda sér í samkeppni við Dani og munu þeir sennilega missa spón úr aski sínum ef þetta verður að veruleika.

Ef Ísland verður miðstöð millilandaflugs gæti það skapað miklar tekjur fyrir íslensk fyrirtæki, bæði vegna aukinna umsvifa íslenskra fyrirtækja í Nuuk og einnig aukin viðskipti fyrir íslensku flugfélögin Icelandair og Iceland Express.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×