Innlent

Yfir sex þúsund í vanskilum við LÍN

Vanskil hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna námu tæpum einum og hálfum milljarði króna um síðustu mánaðamót. Þetta er fimmtungur af heildar innheimtu sjóðsins á þessu ári.

Þetta kemur fram í svari Lánasjóðs íslenskra námsmanna við fyrirspurn fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis. Sjóðurinn sendir út um 51 þúsund greiðsluseðla á þessu ári samkvæmt áætlun, en gjalddagarnir eru tveir, 1 mars og 1. september.

Vanskil um síðustu mánaðmót námu um 1200 milljónum króna sem er um 20 prósent af heildarupphæð útgefinna greiðsluseðla á þessu ári. Þetta þýðir að tæplega 8000 greiðsluseðlar voru enn ógreiddir um síðustu mánaðamót og hafa gert lítið annað en að safna vöxtum.

Þeir sem lenda í vanskilum hjá LÍN geta sótt um greiðsludreifingu til að létta afborganir. Sé hins vegar ekkert að gert er krafan send til Intrum til frekari innheimtu. Á síðasta ári voru um 2000 kröfur sendar til Intrum, nokkuð færri en árið á undan. Að meðaltali lenda á bilinu 5 til 8 prósent allra greiðsluseðla í innheimtu hjá Intrum.

Reynist innheimta enn árangurslaus fer krafan beint í löginnheimtu sem hefur í för með sér stóraukinn kostnað fyrir skuldara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×