Fótbolti

David Villa: Guardiola uppfyllir allar mínar væntingar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Villa fagnar marki með Lionel Messi.
David Villa fagnar marki með Lionel Messi. Mynd/AP
David Villa líkar lífið vel í Barcelona en spænski landsliðsframherjinn opnaði markareikning sinn í Meistaradeildinni í 5-1 sigri á Panathinaikos á þriðjudagskvöldið.

„Við áttum mjög góðan leik, ekki bara vegna úrslitanna heldur einnig hvernig við spiluðum eftir að hafa tapað leiknum á undan á heimavelli. 30 skot á markið, 5-1 sigur og misheppnað víti. Við erum ánægðir því við sönnuðum að Hercules-leikurinn var vara slys," sagði David Villa.

„Ég er mjög ánægður hérna og er alltaf að aðlagast betur klúbbnum, leikmönnunum og þjálfurunum. Auðvitað þarf maður tíma til að venjast nýju félagi, nýrri borg og nýrri leikfræði en ég vissi það nákvæmlega fyrir hvernig menn eins og Andres [Iniesta], Xavi og [Carlos] Puyol hugsuðu," sagði Villa.

„Ég er mjög ánægður með hvað Pep gerði fyrir mig áður en ég kom og hvað hann er að gera fyrir mig í dag. Mér líður mjög vel að vinna með honum og hann skýrir alltaf vel út fyrir manni hvað hann ætlast til af manni inn á vellinum," sagði Villa um þjálfarann Pep Guardiola.

„Það eru fáar tilviljanir í fótbolta. Ef Xavi, Puyol og Iniesta, sem hafa spilað hér allan sinn fótboltaferil, tala vel um þjálfarann þá er það með réttu. Hann hefur uppfyllt allar mínar væntingar," sagði Villa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×