Innlent

Kærður fyrir að svipta stúlku frelsi og nauðga henni ítrekað

Tölvubúnaður. Lögregla rannsakar meðal annars tölvubúnað mannsins, sem grunur leikur á að innihaldi meðal annars barnaklám.
Tölvubúnaður. Lögregla rannsakar meðal annars tölvubúnað mannsins, sem grunur leikur á að innihaldi meðal annars barnaklám.

Maðurinn sem situr í gæsluvarðhaldi vegna samskipta sinna við þrjár ungar stúlkur sem hann komst í kynni við á Face­book er grunaður um að hafa haldið einni þeirra nauðugri á heimili sínu yfir nótt og nauðgað henni ítrekað. Jafnframt er hann grunaður um að hafa haft samræði við hinar tvær.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær hafa þrjár kærur borist á hendur manninum, sem er tuttugu og tveggja ára. Stúlkurnar voru þrettán, fjórtán og sextán ára.

Elsta stúlkan kærði manninn fyrir að hafa haldið sér nauðugri á heimili hans í byrjun desember og nauðgað sér. Grunur leikur á að hann hafi haft uppi síendurtekið afar ofbeldisfullt athæfi gagnvart stúlkunni um nóttina. Hún fór á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis í kjölfarið, þar sem hlúð var að henni. Hún var með töluverða áverka eftir ofbeldisverk á höfði, í andliti og víðs vegar um líkamann.

Aðstandendur hinna stúlknanna hafa kært manninn fyrir að hafa haft mök við stúlkur undir lögaldri. Málin eru öll til rannsóknar hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins.

Búist er við kröfu um framlengingu varðhalds yfir honum í dag.- jss


Tengdar fréttir

Í varðhaldi vegna áreitis á Facebook

Maður á þrítugsaldri situr nú í gæsluvarðhaldi eftir að hafa átt í vafasömum samskiptum við þrjár ungar stúlkur á Facebook. Þær eru þrettán og fjórtán ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×