Skoðun

Guðlagur G. Sverrisson: Orkuveitan og kosningabaráttan

Umræða um málefni Orkuveitu Reykjavíkur er farin að bera keim af kosningunum framundan. Upplýsingum, sem frambjóðendur telja sér til framdráttar, er haldið á lofti án samhengis við nokkuð annað í rekstri fyrirtækisins eða rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja almennt. Af þeim toga eru vígorð um aukningu skulda Orkuveitunnar. Þær eru vitaskuld viðfangsefni sem reglulega er á borði stjórnar fyrirtækisins og hjá OR sem og hjá Reykjavíkurborg stendur yfir fagleg vinna við að meta stöðuna og áhættuna í okkar síkvika rekstrarumhverfi.

Hér er í stuttu máli farið yfir máefni OR í samhengi við fleiri lykilstærðir rekstursins, s.s. aukningu eigna, verðmæti langtímasamninga og afgjald til eigenda í gegnum tíðina.

Ástæða þess að OR hefur tekið langtímalán í erlendum gjaldmiðlum er einfaldlega sú að vextir af þeim eru brot af þeim vöxtum sem lagðir eru á íslenskar krónur. Nærri lætur að erlendur fjármagnskostnaður OR sé jafn og ef íslensk lán hefðu verið tekin, þrátt fyrir gengishrunið. Öll styrking krónunnar frá því sem nú er gerir því erlendu lánin hagstæðari að öðru óbreyttu. Almenningur getur fylgst býsna vel með þróun skuldastöðu OR. Ársreikningur liggur fyrir og gengi íslensku krónunnar má lesa t.d. á vef Seðlabanka Íslands.

Eignir OR hafa aukist mikið enda hafa lánin verið tekin til fjárfestinga í traustum tekjuskapandi eignum. Sé sama mælikvarða beitt á eignir og í upphrópunum um skuldir, þ.e. íslenskar krónur á verðlagi hvers árs, hafa þær meira en fimmfaldast frá stofnun OR; farið úr 42 milljarða verðmati í 282 milljarða króna. Í þessari tölu eru langtímasamningar um orku í erlendri mynt ekki taldir nema að óverulegu leyti. Þeir eru metnir á um 180 milljarða króna. Á sama mælikvarða hefur framlegð Orkuveitu Reykjavíkur aukist úr 2,1 milljarði króna 1999 í 13 milljarða 2009, þ.e. meira en sexfaldast.

Í þessum tölum gætir vitaskuld verðbólguáhrifa en á sama tíma og eignir og framlegð hafa vaxið með þessum hraða, hefur verð á orku ekki haldið í við verðbólgu og skiptir tugum prósenta hvað almenningur greiðir lægra raunverð en fyrir áratug.

Loks er rétt að halda því til haga að meðan á uppbyggingu fyrirtækisins hefur staðið, hefur það greitt verulega fjármuni til sveitarfélaganna sem eiga fyrirtækið og axla með eignarhaldi sínu ábyrgð á rekstri og þjónustu við viðskiptavini langt út fyrir mörk þeirra. Afgjald til eigenda hefur ekki verið tengt afkomu hvers árs. Þannig jafnast sveiflur góðæra og hallæra út í greiðslum til eigenda. Það dæmalausa ástand sem nú er uppi hefur þó leitt til helmings niðurskurðar á afgjaldinu árin 2009 og 2010. Ef reiknað er til núvirðis greiðir Orkuveita Reykjavíkur til eigenda sinna samtals 33 milljarða króna á árunum 1999 til 2010. Það eru um 2,6 milljarðar á ári að jafnaði og hefur margt gott verkefnið verið unnið fyrir það fé.






Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×