Innlent

Þáttaskil í samgöngumálum Norðausturlands

Ögmundur opnar formlega Hófaskarðsleið og Raufarhafnarveg með því að klippa á borða í Hófaskarði. Íbúar norðausturhornsins fagna samgöngubótunum með því að efna til hátíðar um helgina undir heitinu „Núna fer ég norður"
Ögmundur opnar formlega Hófaskarðsleið og Raufarhafnarveg með því að klippa á borða í Hófaskarði. Íbúar norðausturhornsins fagna samgöngubótunum með því að efna til hátíðar um helgina undir heitinu „Núna fer ég norður" Mynd/Arnþór Birkisson

Þáttaskil verða í samgöngumálum Norðausturlands nú klukkan ellefu þegar þeir Ögmundur Jónasson, samgönguráðherra, og Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, opna formlega Hófaskarðsleið og Raufarhafnarveg með því að klippa á borða í Hófaskarði. Öllum íbúum verður síðan boðið til kaffisamsætis í félagsheimilinu á Raufarhöfn.

Nýju vegarkaflarnir eru tveir, 39 og 14 kílómetra langir, en með þeim tengjast Raufarhöfn og Þórshöfn öðrum landshlutum í fyrsta sinn með bundnu slitlagi. Vegalengdir styttast verulega, til dæmis styttist leiðin milli Húsavíkur og Þórshafnar um 53 kílómetra, og vetrarsamgöngur verða öruggari. Að jarðgöngum frátöldum er þetta dýrasta vegagerð hérlendis á undanförnum árum, en heildarkostnaður nam um 2,7 milljörðum króna.

Íbúar norðausturhornsins fagna samgöngubótunum með því að efna til hátíðar um helgina undir heitinu „Núna fer ég norður". Uppákomur af ýmsu tagi verða á Kópaskeri, Raufarhöfn og Þórshöfn en einnig í sveitum, allt vestur frá Ásbyrgi og austur á Langanes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×