Fótbolti

Stórsókn Argentínumanna en aðeins eitt mark í sigri á Nígeríu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gabriel Heinze fagnar hér sigurmarki sínu í leiknum.
Gabriel Heinze fagnar hér sigurmarki sínu í leiknum. Mynd/AP
Argentínumenn unnu sinn fyrsta leik í úrslitakeppni HM í Suður-Afríku þegar þeir unnu 1-0 sigur á Nígeríu í dag. Argentínska liðið byrjar keppnina vel undir stjórn Diego Maradona en hans menn fóru þó ekki vel með færin sín í þessum leik.

Stórsókn Argentínumanna skilaði aðeins einu marki og það skoraði miðvörðurinn Gabriel Heinze strax í upphafi leiks. Nígeríumenn voru skeinuhættir það sem eftir var leiks og Argentínumönnum tókst ekki að nýta góð færi sín til þess að gera út um leikinn.

Sigurmarkið var af flottari gerðinni og kom á 6. mínútu. Juan Sebastian Veron tók þá hornspyrnu og Heinze átti frábæran skutluskalla úr miðjum teignum og sendi boltann rakleiðis upp í bláhornið. Argentínumenn voru þá nánast búnir að vera í einni langri sókn frá upphafi leiksins.

Argentínski snillingurinn Lionel Messi sýndi oft á tíðum frábær tilþrif í leiknum en Vincent Enyeama markvörður Nígeríu sá til þess að Messi tókst ekki að skora í leiknum. Messi átti alls 12 skot í þessum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×