Sport

Jakob Jóhann og Ragnheiður valin sundfólk ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Jóhann Sveinsson.
Jakob Jóhann Sveinsson. Mynd/Valli
Jakob Jóhann Sveinsson úr Sundfélaginu Ægi og Ragnheiður Ragnarsdóttir úr KR voru útnefnd sundfólk ársins á uppskeruhátíð SSÍ í gær.

Jakob Jóhann Sveinsson var útnefndur sundmaður ársins 2009 - 2010. Jakob átti gott síðasta sundár og endaði það með góðri frammistöðu á Evrópumeistaramótinu í 50 metra laug. Jakob varð Íslandsmeistari í 50, 100 og 200 metra bringusundi um helgina.

Ragnheiður Ragnarsdóttir var útnefnd sundkona ársins 2009 - 2010. Ragnheiður fór mikinn á sundárinu og sýndi að hún ætlar sér stóra hluti í framtíðinni. Ragnheiður varð Íslandsmeistari í 50 og 100 metra skriðsundi um helgina.

Þau Jakob Jóhann og Ragnheiður unnu líka besta afrek á ÍM25 sem fram fór um helgina. Ragnheiður bætti eigið Íslandsmet í 100 metra skriðsundi þegar hún synti á tímanum 54,65 sekúndum og fékk fyrir það 871 FINA stig. Jakob Jóhann fékk svo 836 FINA stig fyrir 100 metra bringusund en hann náði einnig 836 FINA stigum fyrir 50 metra bringusund. FINA stigataflan er þannig uppbyggð að gildandi heimsmet er 1000 stig.

Þeir Klaus Jürgen-Ohk og Vadim Forafonov voru útnefndir þjálfarar ársins 2009 - 2010. Klaus hefur verið aðalþjálfari Sundfélags Hafnarfjarðar síðan 2008 og hlaut titilinn þjálfari ársins 2009 - 2010. Vadim er þjálfari Sunddeildar Fjölnis. Hann hefur starfað þar síðan 2009 og var útnefndur unglingaþjálfari ársins 2009 - 2010.

Gunnar Viðar Eiríksson var valinn dómari ársins 2009 - 2010 á uppskeruhátíð SSÍ sem haldin var á Grand Hótel í gærkvöldi. Þetta er annað árið í röð sem Gunnar hampar titlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×