Handbolti

Alexander líklega ekki með gegn Lettum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexander Petersson.
Alexander Petersson. Mynd/Diener

Alexander Petersson verður væntanlega ekki með íslenska landsliðinu þegar það mætir Lettlandi í undankeppni EM 2012 á miðvikudagskvöldið.

Alexander meiddist í leik Füchse Berlin og Rhein-Neckar Löwen í þýsku úrvalsdeildinni í gær en kom hingað til lands í dag.

Hann gat ekki tekið þátt í æfingu landsliðsins nú síðdegis og er svartsýnn fyrir leikinn gegn Lettum.

„Hnéð er mjög vont í dag. Ég fer þó í myndatöku á morgun og við sjáum til. En ég held að ég nái ekki leiknum," sagði Alexander við Vísi í dag.

Þetta er sérstaklega súrt í broti fyrir hann þar sem að Alexander fæddist og ólst upp í Lettlandi og á meira að segja að baki leiki með lettneska landsliðinu.

„Ég hef verið að bíða eftir tækifæri til að spila við Letta undanfarin sjö ár og það er svekkjandi að þurfa að vera meiddur nú," sagði Alexander en bindur þó vonir við að geta spilað gegn Lettum ytra næsta sumar.

„Það verður síðsti leikurinn okkar í undankeppninni og væri ekki slæmt að fá að spila þar með íslenska landsliðinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×