Karlsson lék lokahringinn á 67 höggum eða 5 höggum undir pari en Poulter lék á 70 höggum og báðir voru þeir á 14 höggum undir pari. Þeir fóru því í bráðabana á 18. braut, og báðir fengu þeir fugl og því varð að leika 18. brautina á ný sem er par 5 hola um 550 metrar á lengd. Þriðja höggið hjá Poulter var alls ekki nógu gott og Karlsson var í vænlegri stöðu eftir þriðja höggið.
Poulter gerði síðan mistök á flötinni þegar hann færði merkið sitt áður en boltinn var á réttum stað og fyrir það fékk hann eitt högg í víti. Karlsson fékk fugl og tryggði sér 110 milljónir kr. í verðlaunafé.

Þjóðverjinn Martin Kaymer tryggði sér 140 milljónir kr. fyrir að tryggja sér efsta sæti peningalistans á Evrópumótaröðinni. Kaymer, sem er aðeins 25 ára gamall, er annar Þjóðverjinn sem nær því að vera í efsta sæti peningalistans á Evrópumótaröðinni.
Kaymer er sá yngsti sem nær efsta sæti peningalistans frá árinu 1989 þegar Ronan Rafferty var efstur. Kaymer, sem sigraði á PGA-meistaramótinu í haust, fékk um 700 milljónir kr. alls í verðlaunafé á árinu 2010.