Viðskipti erlent

Facebook kostar danska vinnuveitendur 250 milljarða

Danir nota hina vinsælu vefsíðu Facebook það mikið í vinnu sinni að það kostar danska vinnuveitendur 11 milljarða danskra kr. eða um 250 milljarða kr. á hverju ári í glötuðum vinnustundum.

Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar á vegum danska viðskiptaráðsins (Dansk Erhverv) en fjallað er um málið í viðskiptablaðinu Börsen. Danir eru í hópi þriggja landa í heiminum þar sem meirihluti þjóðarinnar notar Facebook. Ísland er einnig í þeim hópi.

Meðal þess sem fram kom í rannsókninni var að aðeins 7,8% af dönskum Facebooknotendum hafa gagn af vefsíðunni í starfi sínum það er viðskiptavini og viðskiptasambönd.

Charlotte Vester einn framkvæmdastjóra Dansk Erhverv segir að Facebook notkun á vinnustað sé vissulega vandamál. „Það kom okkur hinsvegar á óvart hve útbreidd hún er," segir Vester. „Þetta kemur niður á framleiðslunni og getur dregið úr samkeppnishæfni."

Anders Colding-Jörgensen sálfræðingur segir að það geti verið starfsmönnum til góða ef vinnuveitendur takmarki notkun Facebook meðal starfsmanna sinna. Facebook skapi fíkn hjá sumum og sé mikill tímaþjófur.

Peter Grönne hjá veffyrirtækinu Dwarf, sem vann að rannsókninni, segir að bann við notkun Facebook sé kannski ekki rétta svarið við vandamálinu. Hinsvegar megi takmarka notkunin til dæmis með því að tölvupóstur tengdur vinnu viðkomandi sé ekki notaður á Facebook.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×