Golf

Shrek með fimm högga forustu á opna breska

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louis Oosthuizen
Louis Oosthuizen Mynd/AP
Suður-Afríkumaðurinn Louis Oosthuizen hefur fimm högga forskot eftir annan daginn á opna breska meistaramótinu í golfi en Norður-Íriinn Rory Mcllroy sem var í forustu eftir fyrsta daginn átti hinsvegar afleitan dag í gær og var einn af fórnarlömdum erfiða aðstæðna.

Louis Oosthuizen lék á 67 höggum í gær eða á fimm höggum undir pari en hann lék fyrsta daginn á 65 höggum og er því á tólf höggum undir pari eftir 36 holur. Oosthuizen er kallaður Shrek af vinum sínum og hefur best náð 73. sæti á risamóti sem var á PGA-meistaramótinu 2008.

Oosthuizen hafði ekki komist í gegnum niðurskurðinn í þremur tilraunum á opna breska en hafði heppnina með sér að fara snemma út í gær og áður en vindurinn tók öll völd á St. Andrews vellinum.

Oosthuizen var með þriggja högga forskot á Rory Mcllroy þegar hann lauk hringnum í gær en forskotið átti eftir að aukast þegar leið á daginn. Hinn fimmtugi Mark Calcavecchia er í öðru sæti eftir að hafa fengið 13 pör og 5 fugla í gær.

Rory Mcllroy spilaði jafnilla í gær og hann spilaði vel í fyrradag þegar hann fékk sex fugla á síðustu níu holunum. Mcllroy paraði fyrstu þrjár holurnar en lenti síðan í því að bíða í 65 mínútur á fjórðu holunni á meðan leik var frestað vegna veðurs. Biðin fór greinilega með taugarnarna því hann fékk fjóra skolla á næstu fimm holum og endaði daginn á átta höggum yfir pari. Hann lék því 17 höggum verr í gær en á fyrsta deginum.

Tiger Woods endaði annan hringinn á því að rétt missa af erni en er í 15. sæti á fjórum höggum undir pari eða átta höggum á eftir Louis Oosthuizen.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×