Innlent

Feiknarleg átök elds og íss í Gígjökli

Mikil átök hafa verið við Gígjökul síðastliðinn sólarhring þar sem glóandi hrauneðjan er við það að steypast undir snarbrattan skriðjökul. Þar takast á ís og eldur með feiknarlegum fljóðbylgjum og svo eitruðum gufum að nærri var liðið yfir vísindamann sem nálgaðist vatnsflauminn.

Það var aðeins í skamma stund í hádeginu sem birti til yfir Eyjafjallajökli og sást til öskubólstra en gosstöðvarnar hafa annars verið huldar skýjum í dag. Mökkin lagði til suðausturs yfir Vík og bárust fregnir af öskufalli alla leið austur úr Álftaveri. Mesta spennan hefur verið við Gígjökul í norðuhlíðum eldfjallsins en þangað stefnir hraunið frá gígnum, og ekkert smáræði sem upp kemur, eða um 50 tonn á sekúndu.

Hraunið er þegar komið þrjá kílómetra frá gígnum og er nú í efstu drögum skriðjökulsins. Það er nú í um 500 metra hæð en snarbratt er niður jökulinn þannig að það gæti tekið skamman tíma fyrir það að falla alla leið niður á láglendið.

Þarna krystallast átök elds og íss. Glóandi hrauneðjan bræðir sér leið undir ísinn og sjóðheitt bræðsluvatnið steypist niður í flóðbylgjum um hrikaleg ísgljúfur og göng, eða á yfirborði í mögnuðum aurfossum og kolmórauðum. Í nótt og í morgun var flóðvatnið þarna orðið svo heitt að vatnshiti við gömlu Markarfljótsbrúna 15 kílómetrum neðar rauk upp í 17 gráður. Eftir hádegi féll vatnshitinn svo aftur niður undir frostmark en þá var bræðsluvatnið blandað íshröngli.

Þarna eru mikil átök náttúrunnar í gangi, stóreflis jakar velta niður og lengst niður á Markarfljótsaurum mátti sjá jakabjörg eftir nóttina. Þarna hafa orðið miklar breytingar á síðustu tveimur sólarhringum, eins og Þorsteinn Jónsson á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands lýsti í viðtali við Stöð 2.

En þótt sjónarspil náttúrunnar sé magnað leynast þarna hættur eins og vísindamennirnir reyndu þegar þeir tóku sýni af flóðvatninu við Gígjökul, en urðu þá fyrir eituráhrifum af brennisteinsgufum. Þannig var næstum liðið yfir Eydísi Salome Eiríksdóttur jarðfræðing en hún lýsti reynslu sinni í fréttum Stöðvar 2.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×