Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra hefur bæst í hóp þeirra sem brugðist hafa við ummælum Arnolds Schilders hjá hollenskri þingnefnd í gær þar sem hann sagði að íslenskir embættismenn hefðu logið að kollegum sínum í Hollandi. Gylfi segir að hjá ráðuneytinu séu slíkar ásakanir teknar mjög alvarlega.
„Eitt af þeim verkefnum sem liggja fyrir er að komast til botns í því hvort erlendar eftirlitsstofnanir fengu rangar eða misvísandi upplýsingar frá bönkunum, innlendum eftirlitsaðilum eða öðrum embættismönnum mánuðina fyrir hrunið. Það er von okkar að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis muni leiða þetta í ljós og dýpka þar með skilning okkar á því hvernig þessir aðilar hefðu getað brugðist við með öðrum hætti," segir Gylfi.
Hann bendir einnig á að frumvarp til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki sem nú liggur fyrir Alþingi til samþykktar muni gerbreyta öllu regluverki íslensks fjármálamarkaðar. „Verði það að lögum munum við hafa tekið mikilvæg skref til þess að tryggja að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafi aðgang að mun betri og nákvæmari gögnum um stöðu nýju bankanna og annarra fjármálastofnana og mun betra svigrúm til að bregðast við slíkum upplýsingum með afgerandi hæti þegar vandamál gera vart við sig."