Skoðun

Lausnir sem hafa legið fyrir

Gunnar Bragi Sveinsson skrifar
Fyrir kosningar vorið 2009 lögðu framsóknarmenn áherslu á að leiðrétta bæri skuldir heimila og færðu rök fyrir því að sú aðgerð kæmi á endanum öllum til góða, bæði þeim sem skulduðu og þeim sem ekkert skulduðu.

Þolinmæði fólks gagnvart stökkbreyttum skuldum heimila, atvinnuleysi og forystuleysi í stjórnmálum er nú á þrotum. Framsóknarmenn hafa lagt fram fjölmörg þingmál um leiðréttingu skulda heimila og fyrirtækja, afnám verðtryggingar í áföngum og fleira. Meðal þeirra eru:

* Þingsályktun um aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs lögð fram í mars 2009, þingsályktun um almenna skuldaleiðréttingu lögð fram í maí 2009

*Þingsályktun um endurreisn íslensku bankanna þar sem m.a. er gert ráð fyrir afnámi verðtryggingar, lögð fram í júlí 2009

*Þingsályktun um almenna skuldaleiðréttingu lögð fram í október 2009

*Þingsályktun um vexti og verðtryggingu (hámarkshækkun verðtryggingar fjárskuldbindinga) lögð fram í október 2009

*Þingsályktun um ráðgjafarstofu fyrirtækja í greiðsluörðugleikum, lögð fram í október 2009

*Frumvarp um frestun nauðungarsölu og flýtimeðferð einkamála lagt fram í febrúar 2010 .

*Í júní 2010 er mælt fyrir þingsályktun um þjóðarsátt þar sem m.a. er lögð til skuldaleiðrétting.

Við þennan lista má svo bæta þingmálum sem þingmenn annarra flokka hafa lagt til en ekki náð fram að ganga. Af þessu má ráða að oft hafa stjórnvöld verið hvött til þess að grípa til almennra aðgerða en fram að þessu hefur ekki verið hlustað. Þingflokkur framsóknarmanna mun halda áfram að tala fyrir almennum aðgerðum þótt þvergirðingsháttur ríkisstjórnarinnar geri það að verkum að það kunni að vera of seint fyrir einhverja. Við munum nú sem fyrr taka þátt í þeim verkefnum er bæta hag heimila og fyrirtækja sama hvaðan tillögur í þeim efnum koma og mæla áfram fyrir tillögum í þeim anda sem hér hafa verið taldar upp. Eðlilegur rekstrargrundvöllur heimila og fyrirtækja er forsenda endurreisnar, fyrir því verður áfram barist.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×