Innlent

Vill endurskoða bótakerfið

Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, er formaður velferðarráðs.
Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, er formaður velferðarráðs. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar segir það vera óréttlátt að fólk á lágmarkslaunum fái lægri bætur vegna barna heldur en bótaþegar og vill endurskoða kerfið. Í mörgum tilvikum eru tekjur þessa fólks þær sömu.

Ráðstöfunartekjur þeirra sem eru í fullri vinnu og þiggja lágmarkslaun eru í sumum tilvikum lægri heldur en hjá þeim sem eru á bótum eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær.

Munar þar mestu um viðbótarbætur sem einstaklingum með lágmarkslaun stendur ekki til boða. Við ákvörðun bóta ræður í sumum tilvikum mestu hvaðan tekjurnar koma en ekki hversu háar þær eru.

Tökum dæmi um bætur vegna barna fyrir utan barnabætur. Fólk á lágmarkslaunum fær ekkert, atvinnulausir eiga rétt á 6 þúsund krónum fyrir hvert barn, öryrki getur fengið tæpar 22 þúsund krónur og þeir sem þiggja fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögunum geta fengið rúmar 12 þúsund krónur.

Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir nauðsynlegt að endurskoða kerfið. „Það er óréttlátt að það fari eftir því hvaðan tekjur foreldranna koma hvaða stuðning foreldrar fá og þetta þarf að leiðrétta."

Björk segir ennfremur nauðsynlegt að skilgreina lágmarksframfærslu á Íslandi. „Það sem þarf að gera er að endurskoða allar aðrar bætur sem fólk er að fá þannig að það sé litið til tekna fólks en ekki hvaðan tekjurnar koma," segir Björk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×