Innlent

Fjandsamleg yfirtaka á Háskólanum á Bifröst

Magnús Árni Magnússon, rektor Háskólans á Bifröst.
Magnús Árni Magnússon, rektor Háskólans á Bifröst.
Magnús Árni Magnússon segist ekki ætla að verða rektorinn sem leggur niður háskólastarf á Bifröst og vill að skólinn dragi sig út úr sameiningarviðræðum við Háskólann í Reykjavík.

Háskólinn á Bifröst og Háskólinn í Reykjavík hafa átt í sameiningarviðræðum í meira en tvo mánuði. Í fréttum RÚV í gær kom fram að á meðal þess sem þessar viðræður hafa skilað er að til greina kemur að við sameinguna verði öll háskólakennsla flutt frá Bifröst og til Reykjavíkur, en á Bifröst yrði þá eingöngu frumgreinadeild og styttri námskeið.

Rektorinn á Bifröst er afar ósáttur við að sameiningarviðræðurnar hafi skilað þessari niðurstöðu. „Auðvitað hugnast mér þetta bölvanlega. Ég hef tekið þá afstöðu að ég ætla ekki verða rektorinn sem leggur niður háskólastarf á Bifröst þannig að ég mun leggja það til að við drögum okkur út úr þessum viðræðum.“

Magnús segist vilja skoða aðrar leiðar til að tryggja að Háskólinn á Bifröst geti starfað áfram, en hann óttast að viðræðurnar sé komnar svo langt að erfitt verði að snúa til baka.

Endanleg ákvörðun um hvort Háskólinn á Birftöst slíti viðræðum við HR eða gangi til samstarf með fyrrgreindum afleiðingum er í höndum stjórnar skólans. Magnús vonast til þess hún taki undir með honum og slíti viðræðunum við HR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×