Innlent

Norðurlandaráð bað barþjón afsökunar

Pétur Gunnarsson skrifar
Frétt Aftonbladet.
Frétt Aftonbladet.
Forseti Norðurlandaráðs kallaði forseta Norðurlandaráðs æskunnar á sinn fund á fimmtudagsmorgun til þess að ræða framkomu eins þingfulltrúa við barþjón á Ölstofunni í Reykjavík.

Eins og Fréttablaðið sagði frá í gær veittist ungur liðsmaður Svíþjóðardemókrata (SD) að barþjóni af palestínskum uppruna með rasískum fúkyrðum og kastaði í hann glasi.

Fréttir af þessu voru meðal fimm mest lesnu frétta á fréttavefum sænsku dagblaðanna DN, Aftonbladet og Expressen í gær.

Aftonbladet segir að niðurstaða fundar forseta Norðurlandaráðs og Norðurlandaráðs æskunnar hafi orðið sú að barþjóninum hafi verið send opinber afsökunarbeiðni Norðurlandaráðs æskunnar. Þar hafi atvikið verið harmað en um leið áréttað að ráðið tæki ekki ábyrgð á framkomu einstaklinga úr hópi þingfulltrúa og áheyrnarfulltrúa.

Sænsku fjölmiðlarnir nefna unga Svíþjóðardemókratann. Hann heitir William Hahne og er átján ára fjölmiðlafulltrúi ungliðahreyfingar SD, sem er þjóðernissinnaður hægriflokkur sem var einn af sigurvegurum þingkosninganna í Svíþjóð fyrr á þessu ári.

„Við í Norðurlandaráði æskunnar flækjumst inn í þetta hvort sem okkur líkar betur eða verr,“ segir Minna Lindberg, formaður Norðurlandaráðs æskunnar, í samtali við vefsíðuna E í gær. Hún var kölluð til fundar með forseta Norðurlandaráðs vegna málsins.

Hún var á stödd Ölstofunni eins og fjölmargir aðrir þingfulltrúar en segist í samtali við Expressen ekki hafa séð hvað gerðist þótt hún hafi orðið vör við átök og segir að einn af félögum Hahnes í Norðurlandaráði æskunnar hafi tekið þátt í að róa menn niður.

„Við höfum lagt mjög hart að okkur í samstarfi Norðurlandaráðs æskunnar og Norðurlandaráðs,“ segir Minna og kveðst vona að framkoma Williams Hahne á Ölstofunni í Reykjavík hafi ekki skaðleg áhrif á stöðu Norðurlandaráðs æskunnar gagnvart Norðurlandaráði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×