Skoðun

Nýir möguleikar með Landeyjahöfn

Kristján L. Möller skrifar
Hafnarmannvirkið nýja í Landeyjum er með stærstu samgönguframkvæmdum síðustu árin. Landeyjahöfn mun líka hafa víðtækari áhrif en við gerum okkur grein fyrir. Fyrir utan að stórbæta daglegar samgöngur milli lands og Eyja opnar hún nýja möguleika í atvinnu- og félagslífi.

Hugmyndin um hafnargerð við suðurströnd landsins var við fyrstu sýn næsta óráðleg. Sjólag, sandrif, sandburður um fjöruna og síbreytilegt Markarfljótið virtust óyfirstíganlegar hindranir. En vísindamenn Siglingastofnunar, sem höfðu forgöngu um rannsóknir, sýndu fram á að þetta var gerlegt og þeir nutu einnig reynslu sjómanna.

Hugvit og verkþekkingÉg vil draga sérstaklega fram þátt verktakanna. Aðalverktakinn var Suðurverk sem sá um grjótnám, gerð brimvarnargarða, hafnargerðina sjálfa og vegagerð. Aðrir verktakar, SÁ verklausnir, Stál og suða og Björgun, unnu snaggaralega að öðrum þáttum svo sem byggingu þjónustuhúss, landgangs, dýpkun og lóðarfrágangi. Starfsmenn verktakanna hafa skilað góðu verki og geta verið stoltir.

Landeyjahöfn er sannkallað mannvirki. Þar má í hnotskurn sjá hvernig hugvit, verkþekking og útsjónarsemi mannsins tvinnast saman í því virki sem grjótið úr Seljalandsheiði er orðið að.

Landeyjahöfn er líka þrekvirki. Óblítt veðurfar á köflum, krefjandi aðstæður í fjörunni og nú síðast eldgos í Eyjafjallajökli hafa ekki auðveldað verkið. Samt sem áður hefur verkáætlun staðist og það sem meira er, kostnaðaráætlun hefur einnig staðist.

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur hefur nú reglulegar siglingar á nýrri leið, þjóðveginum milli lands og Eyja. Fjölgun ferða Herjólfs gjörbreytir ferðamynstri og flutningamöguleikum. Einnig opnast nýir samskipta- og samstarfsmöguleikar milli íbúa á Suðurlandi og Vestmannaeyinga sem ég er sannfærður um að munu nýtast. Þar ræður hugmyndauðgin mestu.

Nýtum möguleikannÉg vil að lokum hvetja landsmenn til að gera sér ferð að Landeyjahöfn og til Eyja og njóta fjölbreyttrar náttúru og skemmtilegs mannlífs. Ég vil á sama hátt hvetja Vestmannaeyinga til að gera sér ótt og títt ferð upp á land. Um leið getum við dáðst að því hugviti og verkþekkingu sem höfnin er skýrt vitni um.

Ég vil að lokum óska Íslendingum öllum til hamingju með þetta mikla mannvirki sem tekið verður í notkun í dag klukkan 16.30.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×