Enski boltinn

Hver verður næsti stjóri Newcastle?

Elvar Geir Magnússon skrifar
Martin O'Neill er talinn líklegastur til að taka við Newcastle.
Martin O'Neill er talinn líklegastur til að taka við Newcastle.

Newcastle er nú í leit að sínum áttunda knattspyrnustjóra á sex ára tímabili. Chris Hughton var sparkað í dag og ræða menn ýmsar hugmyndir um hver taki við af honum. Við skulum líta á nokkra kosti.

Martin O'Neill

Er talinn líklegastur. Hefur gríðarlega reynslu og stýrt fjórum enskum liðum ásamt skoska stórveldinu Glasgow Celtic. Stýrði síðast Aston Villa en lét af störfum í ágúst.

Alan Curbishley

Hefur verið í fríi síðan hann hætti hjá West Ham 2008. Stýrði Charlton þar áður með eftirtektaverðum árangri.

Alan Shearer

Algjör goðsögn í augum stuðningsmanna Newcastle enda helsti markaskorari í sögu félagsins. Var ráðinn til að reyna að bjarga Newcastle frá falli 2008/09 en mistókst. Þá var Hughton ráðinn.

Alan Pardew

Án starfs eftir að hafa verið rekinn frá Southampton í ágúst. Stýrði West Ham og Charlton í úrvalsdeildinni á sínum tíma.

Diego Maradona

Ekki eins galið og það hljómar. Var orðaður við Aston Villa áður en Gerard Houllier var ráðinn. Hefur oft lýst yfir áhuga sínum á að taka við liði í ensku úrvalsdeildinni.

Joe Kinnear

Umdeildur. Var óvænt ráðinn af Mike Ashley 2008 eftir að hafa verið frá knattspyrnustjórn í fjögur ár. Stýrði Newcastle um tíma en hætti eftir að hafa farið í uppskurð. Var óvinsæll meðal fjölmiðla og stuðningsmanna. Ólíklegt að hann verði ráðinn.

Gordon Strachan

Átti frábæra tíma sem stjóri hjá Coventry, Southampton og Celtic áður en hann tók við Middlesbrough þar sem lítið gekk. Líflegur karakter sem hefur unnið marga titla í Skotlandi.

Lee Clark

Fyrrum miðjumaður Newcastle. Hefur vakið athygli hjá 2. deildarliðinu Huddersfield sem er hans fyrsta knattspyrnustjórastarf. Reynsluleysi hans gerir það þó að verkum að mjög ólíklegt er að honum verði boðið starfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×