Handbolti

Grótta rak Halldór Ingólfsson eftir að hann tók tilboði Hauka

Hans Steinar Bjarnason skrifar
Halldór Ingólfsson spilaði líka með Gróttu í vetur.
Halldór Ingólfsson spilaði líka með Gróttu í vetur. Mynd/Valli
Samkvæmt heimildum íþróttadeildar Stöðvar 2 hefur handknattleiksdeild Gróttu rekið þjálfarann Halldór Ingólfsson, skömmu eftir að hann tók boði um þjálfa Hauka að loknu yfirstandandi keppnistímabili í N1 deild karla.

Eins og fram kom í gær hefur Halldór þegið boð Hauka um að taka við Haukaliðinu í sumar af Aroni Kristjánssyni sem hefur verið ráðinn þjálfari Hannover Burgdorf í Þýskalandi frá og með næsta tímabili.

Halldór tilkynnti Gróttumönnum ákvörðun sína í gærkvöldi þar sem hún virðist hafa fallið í grýttan jarðveg. Samningur hans hjá Gróttu var uppsegjanlegur í sumar en Gróttumenn riftu samningnum í gærkvöldi.

Eiríkur Elís Þorláksson formaður handknattleiksdeildar Gróttu vildi ekkert tjá sig um málið þegar íþróttadeild hafði samband við hann í morgun til að fá þetta staðfest. Þá náðist ekki í Halldór í síma.

Halldór sem er 41 árs hefur verið spilandi þjálfari Gróttu í vetur. Grótta er í harðri fallbaráttu í N1 deildinni, í þriðja neðsta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×