Innlent

Sjálfstæðismenn styðja mjólkurfrumvarp

Einar K. Guðfinnsson fulltrúi Sjálfstæðismanna ítrekar stuðning sinn við málið og segir engar grundvallarbreytingar felast í því.
Einar K. Guðfinnsson fulltrúi Sjálfstæðismanna ítrekar stuðning sinn við málið og segir engar grundvallarbreytingar felast í því. MYND/Vilhelm

Annar fulltrúa Sjálfstæðisflokks í landbúnaðarnefnd segist standa við stuðning sinn við mjólkurfrumvarp landbúnaðarráðherra, en hinn segir gagnrýni á frumvarpið sem fram hefur komið ekki eiga rétt á sér. Báðir eru þeir þó sammála um að landbúnaðarnefnd þurfi að fara yfir málið í ljósi gagnrýninnar og útiloka ekki að frumvarpið taki breytingum.

Mjólkurfrumvarpið felur í sér að fésektir verði lagðar á mjólkursamlög sem taka við mjólk frá framleiðendum umfram framleiðslukvóta til sölu innanlands. Bæði Samkeppniseftirlitið og Samtök verslunar og þjónustu hafa gagnrýnt frumvarpið harkalega og segja það afturhvarf frá frjálsri samkeppni og það skerði atvinnufrelsi.

Báðir fulltrúar Sjálfstæðisflokks í landbúnaðarnefnd alþingis, þeir Einar K. Guðfinnsson og Jón Gunnarsson, skrifuðu undir nefndarálit þar sem lagt er til að mjólkurfrumvarpið verði samþykkt, Jón þó með fyrirvara.

Jón segir gagnrýnina á frumvarpið ekki eiga rétt á sér og málið hafi verið einfaldað um of í umræðunni en Einar segir frumvarpið ekki fela í sér neinar grundvallarbreytingar á landbúnaðarkerfinu, heldur feli það í sér úrræði til að fylgja eftir gildandi lögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×