Innlent

Hæstiréttur kveður upp gengisdóm í dag

Það ræðst í dag hvaða vextir verða á gengistryggðum bílalánum. Hæstiréttur dæmir þá í prófmáli, en hann hafði áður dæmt gengistryggingu ólöglega.

Niðurstaðan verður kynnt í Hæstarétti klukkan fjögur í dag. Hún mun hafa víðtæk áhrif því talið er að horft verði til niðurstöðu Hæstaréttar við væntanlega lagasetningu um uppgjör á ólögmætum gengistryggðum lánum.

Stefnandi málsins er fjármögnunarfyrirtækið Lýsing, en það höfðar málið á hendur skuldara vegna vanskila á dæmigerðu gengistryggðu bílaláni, sem tekið var árið 2007.

Í málinu er ágreiningur um þá vexti sem nota á við uppgjör lánsins eftir að gengistrygging bílalána var dæmd ólögmæt. Lögmaður Lýsingar segir að forsendubrestur hafi átt sér stað þegar gengistryggingin var dæmd ólögleg, og samningsvextirnir séu því of lágir

Aðalkrafa Lýsingar í málinu er því að lánið verði uppreiknað miðað við verðtryggingu og verðtryggða vexti samkvæmt gjaldskrá fyrirtækisins, en það er nokkru hærri krafa en felst í tilmælum eftirlitsstofnana til fjármálafyrirtækja.

Varakröfur lýsingar eru nokkrar; til dæmis að miðað verði við verðtryggingu og vexti Seðlabankans, óverðtryggða vexti Lýsingar, svokallaða Reibor millibankavexti eða óverðtryggða vexti Seðlabankans.

Krafa lántakans er hins vegar sú að vaxtaskilmálar lánsins haldist óbreyttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×