Viðskipti erlent

Skuldabréfaútboð Grikkja lofar góðu

Í morgun tilkynnti gríska ríkisstjórnin um skuldabréfaútboð sem ætlað er að safna 5 milljörðum evra. Gangi það eftir á Grikkland engu að síður enn eftir að fjármagna 48 milljarða evra halla til viðbótar.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að fyrstu viðbrögð við útgáfunni eru talin lofa góðu og þykja auka líkur þess að Grikkland muni komast í gegnum það versta án beinnar aðstoðar Evrópusambandsins.

Sviðsljósið á fjármálamörkuðum í Evrópu heldur áfram að beinast að Grikklandi sem rambar nánast á barmi greiðslufalls í kjölfar mikils hallareksturs í undangenginni fjármálakreppu, og raunar linnulaust síðustu áratugina.

Evrópusambandið hefur þrýst á Grikkja að leysa vandann sem fyrst enda hefur ástandið áhrif á allt evrusvæðið. Í gær tilkynntu stjórnvöld í Aþenu um skattahækkanir og niðurskurð opinberra útgjalda til að stemma stigu við hallanum. Aðgerðirnar höfðu jákvæð áhrif á fjármálamarkaði en auk þess að valda viðsnúningi á gengi evrunnar á gjaldeyrismörkuðum lækkaði skuldatryggingaálag Grikklands., að því er segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×