Innlent

Örvæntingarfullt herútkall Jóhönnu

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
„Það var ágætis tilraun hjá Jóhönnu til þess að rugla umræðuna," segir Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Fyrir helgi skoraði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á stjórnarandstöðuna að bera upp vantrauststillögu. „Ef þessi ríkisstjórn er svona ómöguleg eins og stjórnarandstaðan er að halda fram, af hverju ber hún ekki fram vantraust á þessa ríkisstjórn? Komið þið fram með vantraust á þessa ríkisstjórn. Við skulum sjá hvort hún hafi meirihluta hér á þingi til þess að takast á við þessi viðfangsefni," sagði Jóhanna í umræðum á Alþingi.

Sigurður fjallar um málið í pistli á heimasíðu sinni. Hann segir að Jóhanna hefði getað sparað sér að óska eftir því að tillaga um vantraust kæmi fram í ljósi þess að vantraustið blasi nú þegar við um allt þjóðfélagið.

Sigurður segir mikilvægt að fólk átti sig á hvers vegna Jóhann setti þessa áskorun fram. „Það var ekki gert til þess að kvetja stjórnarandstöðuna til þessa tillöguflutnings," segir Sigurður og bætir við: „Áskorunin var örvæntingarfullt herútkall Jóhönnu til þingmanna Samfylkingar og Vinstri grænna, sett fram til þess að reyna að þétta raðirnar í ríkisstjórnarsamstarfi sem er að fara í vaskinn og þjóðin er búin að fá nóg af."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×