Viðskipti erlent

Örlög tilboðs Actavis í Ratiopharm ráðast í vikunni

Það ræðst í þessari viku hvort Actavis fái að setjast að samningaborði með tilboð sitt í þýska samheitalyfjafyrirtækið Ratiopharm. Samkvæmt frétt um málið á Reuters verða tilboðsgjafarnir skornir niður í einn eða tvo sem fá að taka þátt í samningum um kaupin.

Eins og fram hefur komið í fréttum berjast þrír aðilar um að fá að kaupa Ratiopharm og hafa lagt fram tilboð í fyrirtækið. Fyrir utan Actavis eru þetta bandaríski lyfjarisinn Pfizer og Teva sem er stærsta samheitalyfjafyrirtæki heimsins.

Actavis nýtur fjárhagslegs stuðnings frá sænska fjárfestingarsjóðnum EQT sem er í eigu Wallenberg fjölskyldunnar. Félagið hefur þar að auki ráðið fyrrum forstjóra Ratiopharm sem ráðgjafa sinn við fyrirhuguð kaup.

Samkvæmt Reuters er mögulegt að gengið verði frá kaupunum á Ratiopharm í næsta mánuði. Fyrirtækið er í eigu Merckle fjölskyldunnar þýsku og er salan liður í áformum fjölskyldunnar að létta á skuldum sínum.

Reiknað er með að kaupverðið á Ratiopharm nemi um 3 milljörðum evra og yrðu kaupin þau stærstu, hvað samheitalyfjafyrirtæki varðar, frá því að Teva keypti Barr í Bandaríkjunum á 7,5 milljarða dollara árið 2008.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×