Viðskipti innlent

Glitnir hélt upplýsingum leyndum fyrir FME

Stjórn Glitnis hélt mikilvægum upplýsingum leyndum fyrir Fjármálaeftirlitinu (FME) árið 2007. Um er að ræða upplýsingar um lánveitingar bankans til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og tengdra aðila. Þessi lán voru langt umfram lög og reglur um hve hátt hlutfall þessi lán máttu vera sem hlutfall af eigin fé Glitnis.

Þetta kemur fram í stefnu þeirri sem slitastjórn Glitnis hefur lagt fram við dómstól í New York og birt er á heimasíðu slitastjórnar.

Í stefnunni segir m.a. að skýrslur Glitnis til FME á tímabilinu júní til desember 2007 hafi verið falsaðar. Í þeim hafi ekki komið fram allir þeir aðilar sem tengdir voru Glitni beint og óbeint. Ekki hafi komið fram réttar upphæðir í dollurum og ekki hafi komið fram að aðilar sem tengdust Glitni hafi einnig verið tengdir innbyrðis.

Í skýrslu Glitnis frá því í lok júní 2007 kemur fram að lán bankans til Baugs hafi þá numið 12,5% af eigin fé bankans. Þetta sé ekki rétt þar sem ekki er getið um aðila sem tengdust Jóni Ásgeiri Jóhannessyni sem svo aftur tengdust allir Baugi. Ef Glitnir hefði lagt fram réttar upplýsingar hefði komið í ljós að lán þessi í heild jafngiltu 27,8% af eigin fé bankans.

Í septemberskýrslu Glitnis til FME þetta ár var einnig um rangfærslur að ræða hvað varðar umfang lána til Jóns Ásgeirs og tengdra aðila, þ.e. Baugs, FL Group og Landic. Ef réttar uplýsingar hefðu verið gefnar í þessari skýrslu átti að koma þar fram að þessi lán voru samtals 56,4% af eigin fé bankans sem er langt umfram það sem leyfilegt er.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×