Innlent

Enginn sérsamningur við Sigurð Einarsson

Sigurður Einarsson.
Sigurður Einarsson.

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, var eftirlýstur af Interpol frá 11. maí síðastliðnum og þar til í gær en þá var handtökuskipunin tekin út af vefsíðu Interpol. Hann hafði ekki sinnt kvaðningu sérstaks saksóknara um að mæta í yfirheyrslur.

Sigurður neitaði að koma til landsins nema gegn því loforði að hann yrði ekki handtekinn en þrír af æðstu stjórnendum Kaupþings voru stuttu áður handteknir, úrskurðaðir í gæsluvarðhald og síðar í farbann ásamt fjórða manni.

Þeir eru grunaðir um skjalafals, auðgunarbrot, brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti, þar með talin markaðsmisnotkun og brot gegn hlutafélagalögum. Við þessum brotum getur legið allt að átta ára fangelsi.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er ekkert samkomulag milli Sigurðar og sérstaks saksóknara um að hann sleppi við handtökur gerist þess þörf við yfirheyrslur.

Ný kvaðning var gefin út í byrjun vikunnar sem Sigurður ákvað að sinna og var handtökuskipunin því afturkölluð í gærkvöldi. Sigurður flaug með áætlunarflugi til landsins í dag og lenti síðdegis. Hann hefur dvalið á heimili sínu í Lundúnum síðustu mánuði og ekki getað farið frá Bretlandi.

Hann verður yfirheyrður af sérstökum saksóknara í fyrramálið. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, vildi ekki tjá sig um málið við fréttastofu í dag. Í viðtali við Fréttablaðið í síðustu viku sagði Ólafur Þór að nýjar upplýsingar hefðu komið fram í rannsókninni, málið væri nú orðið stærra og flóknara.

Gestur Jónsson, lögmaður Sigurðar vildi ekki tjá sig við fréttastofu og í sama streng tók lögmaður hans í Bretlandi, Ian Burton.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×