Innlent

Hjón á sjötugsaldri klemmdu þjófinn í glugganum

Boði Logason skrifar
Hjónum á sjötugsaldri brá heldur betur í brún þegar að þau komu heim til sín um tvöleytið í dag. Í þann mund sem þau komu inn í íbúð sína í Reykjavík er þar ókunnugur maður inni sem var búinn að tína til hluti í íbúðinni.

Þegar hann varð var við heimkomu hjónanna, ætlaði hann að hlaupa út um glugga, sem hann hafði spennt upp og komist inn um. Það gekk ekki nógu vel.

Þegar maðurinn var á leið út um gluggann tók húsbóndinn á heimilinu, sem er 65 ára, sig til og klemmdi manninn í glugganum. Hann var því hálfur inni í húsinu og hálfur fyrir utan það. Því næst hringja hjónin á lögregluna sem kom fljótlega á vettvang. Þar losaði lögreglan manninn úr klemmunni og handtók hann.

Frúin á heimilinu segir í samtali við Vísi að það sé gott að enginn slasaðist. „Þetta er náttúrulega hræðilegt en það var gott að enginn slasaðist, nema drengurinn skrámaðist örlítið."

Maðurinn er síbrotamaður, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu, hann var í annarlegu ástandi og situr nú í fangageymslu. Búist er við því að hann verði yfirheyrður í fyrramálið þegar að víman er runninn af honum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×