Íslenski boltinn

Guðmundur: Stigum af bensíngjöfinni og urðum hræddir

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfoss.
Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfoss. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
„Keflvíkingar voru svo sannarlega betri en við í dag og við þurfum að leika mun betur til þess að fá stig gegn stærri liðunum," sagði Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfyssinga eftir tap liðsins á útvelli gegn Keflavík í kvöld, 2-1.

„Það voru því miður of margir sem léku ekki vel í dag og við höfum einfaldlega ekki efni á því. Það var ekki okkur að þakka að staðan var jöfn í hálfleik. Það er áhyggjuefni að eftir að við komust yfir þá stígum við af bensíngjöfinni og urðum hræddir. Það veit ekki á gott gegn sterku liði Keflavíkur."

„Ég var að gæla við það að við myndum ná að læða inn jöfnunarmarki undir lok leiksins en Keflvíkingar hefðu svo sannarlega getað skorað mun fleiri mörk í þessum leik. Það sem ég er ánægður með er að við vorum inn í leiknum allan tímann og þá eigum við alltaf möguleika."

Selfyssingar eru fyrir vikið með sjö stig um miðja deild en framundan eru erfiðir leikir í deild og bikar.

„Við ætluðum okkur ekki að tapa þessum leik og hefðum getað jafnað Keflvíkinga að stigum með sigri. Það er hins vegar lítill tími til að hugsa um það því það er leikið þétt um þessar mundir og við eigum tvo mjög erfiða leiki fyrir höndum," segir Guðmundur en liðið leikur gegn ÍA í bikarnum og mætir svo Fram á heimavelli sínum í sjöttu umferð.

„Fram er lið sem gefst aldrei upp og það er alveg ljóst að allt liðið þarf að vera á tánum í þeim leik ef við ætlum að ná stigum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×